Jól fyrr og nú, íslenska konan.

17.12.2011
Íslenska konan. - Jól fyrr og nú.
Auðkúlu 17.12.2011.

Kona ein, hér í héraði, sagði mér í vikunni sögu frá bernskuheimili eiginmanns síns.
Sögu frá þeim tíma þegar maðurinn hennar var að alast upp ásamt systkinum sínum á sveitabæ hér frammi í Húnvetnskum dal,uppúr 1950.
Systkinin eru að mig minnir sjö eða níu, skiptir ekki öllu máli.

Þegar Margrét, húsmóðirin, móðir barnanna, var að að undirbúa jólin, vann hún oft langt fram á nætur. Mestur friður var eftir að börnin voru sofnuð.
Einn sonurinn vaknaði þó ævinlega þegar leið á kvöldið og fór fram-úr og hjálpaði mömmu sinni í eldhúsinu, við bakstur, matargerð, þrif og annað.
Falleg saga.
-----------------------------------------------------------------------------------------
Þessi saga rifjaði upp, uppvaxtarár mín í Sunnlenskri sveit, Landsveitinni, og jólaundirbúninginn heima.

Ófáar nætur stóð hún mamma mín við bakstur og matargerð, þrif, jafnvel málningarvinnu, veggfóðrun og skreytingar á heimilinu.
Hún bakaði margar gerðir af smákökum; piparkökur, tvöfaldar smákökur, (mömmukökur) smurðar saman með smjörkremi, í mörgum litum, vanilluhringi, loftkökur, hálfmána og margt fleira.
Svo voru tertur; lagtertur, brúnar og hvítar, auk stórra tertna s.s. marengs og rjómatertna.
Mamma kastaði ekki til höndunum, bakkelsið var einfaldlega fyrsta flokks.
Á aðfangadagskvöld var svo lambalæri með öllu tilheyrandi og heimagerður rjómaís (frystur í sérstöku formi í salti og snjó, því enginn var frystirinn) eða heimatilbúinn vanilluhringur með bláberjum.
Á jóladag heimareykt hangikjöt, heimabakaðar flatkökur af bestu gerð o.m.fl.

Mamma sá til þess að allir krakkarnir ættu hrein og straujuð falleg spariföt, sem við prýddumst um jólin.
Mikið af fatnaði okkar var saumaður heima og svo haganlega gerður að talað var um, hvað við krakkarnir í Holtsmúla værum ævinlega fínt til höfð og hrein.

Allt þetta gerði hún mamma, og við miklu lakari aðstæður en flestir búa við í dag.
Þegar árin hennar mömmu urðu fleiri, tóku systur mínar náttúrulega nokkurn þátt í undirbúningi og léttu undir með mömmu.
Geta má nærri um hvað þetta allt hefur verið mikil vinna.

Þetta var fórnfúst starf Íslenskrar móður.

Nú er elsku mamma orðin 80 ára gömul og enn er hún að láta gott af sér leiða.

Pabbi hafði til allt kjöt, saltaði og reykti. Það var mikið búsældarlegt í reykkofanum hans pabba þegar kom fram á aðventu.
Eins var með það, pabbi vann kjötið af alúð og vandvirkni og útkoman varð eftir því.

Á Þorláksmessu fórum við krakkarnir gjarnan með pabba í gegningarnar, og þá var reynt að búa í haginn fyrir hátíðina, t.d. að leysa meira hey úr stabbanum, svo ekki þyrfti að eyða tíma í það yfir hátíðardagana.
Allar skepnur, kindur og kýr fengu svo betri töðuna á hátíðinni.

Jólahátíðin heima var alltaf einstaklega falleg, enda komu eldri systur mínar oftast heim til þess að vera yfir jólin, og löngu eftir að þær höfðu sjálfar hafið sambúð og eignast eigið heimili.
Mér sjálfum fannst alltaf að eitthvað yfirskilvitlegt svifi yfir bænum okkar, gott ef ekki sjálfur Guð og englarnir voru ekki sérstaklega nærri okkur á jólum.
Á þann veg voru tilfinningar ungs og draumlynds drengs.
Ég trúi að fórnfýsi foreldra minna í garð okkar krakkanna, hafi orðið okkur ómetanlegt veganesti sem gott er að búa að.

Minningin sannarlega yljar.

Ég er yngstur okkar systkynanna, á þrjár systur sú elsta er 11 árum eldri en ég.
Systur mínar leiddu mig og vernduðu, með þeim átti ég margar yndislegar stundir.
Ég er því alinn upp með konum, konum sem ávalt voru mér góðar og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að alast upp með.

Pabbi minn er dáinn, hann létst skyndilega á vordögum 1989.
Föðurafa mínum kynntist ég ekki, hann dó þegar ég var á fjórða ári.
Föðurömmu mína þekkti ég ekki mikið enda var hún orðinn legusjúklingur þegar ég fór að eignast einhverja glóru, hún lá á Hrafnistu.
Móðurafa minn þekkti ég ekki náið.
Móðurömmu mína þekkti ég vel og þáði hjá henni góð heilræði.

Ungur eignaðist ég svo yndislega konu, sannkallað tryggðatröll.
Hún hefur nú verið mér vinur og sálufélagi í rúm 25 ár, og staðið við hlið mér og stutt án skilyrða, í öllu okkar bjaki, öll þessi ár.

Það má því segja að konur hafi leikið stórt hlutverk í lífi mínu.
Óhætt er að segja að ekki hafa þær valdið mér vonbrigðum.

Ég sannarlega hef fengið að kynnast; "Íslensku konunni sem sem mig elskaði og helgaði sitt líf."

Ég birti hér texta Ómars Ragnarssonar, sem hann samdi við lag Billys Joels og Pálmi Gunnarsson söng svo fallega fyrir nokkrum árum:

Íslenska konan

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan sem ól þig og þér helgar sitt líf.

Með landnemum sigldi hún um svarrandi haf.
Hún sefaði harma, hún vakti er hún svaf.
Hún þerraði tárin hún þerraði blóð.
Hún var íslenska konan sem allt á að þakka vor þjóð.

Ó, hún var ambáttin hljóð
hún var ástkonan rjóð
hún var amma svo fróð.

Ó, athvarf umrenningsins
inntak hjálpræðisins
líkn frá kyni til kyns.

Hún þraukaði hallæri, hungur og fár.
Hún hjúkraði og stritaði gleðisnauð ár
Hún enn í dag fórna sér endalaust má.
Hún er íslenska konan sem gefur þér allt sem hún á.

Ó, hún er brúður sem skín
Hún er barnsmóðir þín.
Hún er björt sólarsýn.

Ó, hún er ást, hrein og tær
Hún er alvaldi kær.
Eins og Guðsmóðir skær.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
Þú veist hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

En sólin hún hnígur og sólin hún rís.
Og sjá þér við hlið er þín hamingjudís,
sem ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar, sem ann þér og þér helgar sitt líf.

Ómar Ragnarsson.

------------------------------------------

Valdemar Ásgeirsson.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband