Hólsfjöll eða Brussel ? HÓLSFJALLA-HEIMSSPEKI, framtíðin.....?

Auðkúlu 23 des. 2008.

Brussel eða Hólsfjöll ?
Ásdís Ólsen stýrði þætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN nú á dögunum.
Gestir hennar voru; Bryndís Schram, Þráinn Bertelsson, Erla Bolladóttir og Margrét Pála Ólafsdóttir.
Einstaklega skemmtilegt fólk, allt.
Þetta fólk á það sameiginlegt að vera að gefa út æfiágrip nú fyrir komandi jól. Það er reyndar aukaatriði.
Bryndís, Þráinn, Erla, Margrét, og að mér sýndist Ásdís líka, eiga fleira sameiginlegt en að vera að gefa út bækur.
Þau eru öll að kalla eftir breyttri þjóðfélagsskipan.
Þau eru; þverskurður af mannfélagi þjóðar sem vill breytingar. Fólk sem hefur fengið upp í kok af gróða- græðgis og peningahyggju núverandi stjórnvalda.
(Mín skoðun er reyndar að upphafið af græðgisvæðingunni, hinum hömlulausa kapital-isma, hafi verið þegar framsal á kvóta, framleiðslurétti, aflaheimildum eða hvað nafn við veljum fyrirbærinu, var heimilað.
Komum betur að því síðar.)
Aftur að þættinum hennar Ásdísar.
Ég get ekki á mér setið að minnast eilítið á Erlu Bolladóttur. Þarna er á ferðinni sannkölluð hetja. Manneskja sem hefur mátt sitja undir hræðilegum ásökunum allt sitt líf. Manneskja sem ég fullyrði að borin var röngum sökum og pínd til að játa á sig og félaga sína, þar á meðal sambýlismann sinn og barnsföður, hina hræðilegustu glæpi.
Já, pínd, píntuð !!! Svipaðar aðferðir voru notaðar við þetta fólk og notaðar eru í Guantanamo. Fólk sem var einungis unglingar, varnarlausir unglingar sem höfðu kannske, pínulítið farið út af sporinu. Þarna áttu hlut að máli menn sem núna eru hátt settir í samfélaginu. Er sú staðreynd kannske hluti af því að ekki má taka mál Erlu upp og rannsaka það ?
Eins og Þráinn sagði í þættinum er Íslensk þjóð bæði treg og dauf. Nú er 21. öldin, ekki sú 17nda.
Samt er mál Erlu og Sævars, Geirfinnsmálið, ekki tekið upp og rannsakað.
Íslensk stjórnvöld geta sennilega ekki lært. Fer það ekki að verða fullreynt ?
Margrét Pála er sennilega ein af greindustu borgurum þessa lands. Í þættinum lýsti hún lífinu á Hólsfjöllum þar sem hún er uppalin.
Á Hólsfjöllum voru eins og víðast hvar á þeim tíma, í heiðri höfð, gömul og góð gildi s.s. hófsemi, nægjusemi, það að fara vel með, nýta landið o.sv. frv. M.ö.o. allt sem hún amma kenndi.
Margrét segist ekki taka undir með þeim sem vilja byggja upp "nýtt Ísland". Hún vill bara fá til baka "gamla Ísland".
Mikið er ég sammála. Mikill léttir yrði það.
Þráinn greip þetta á lofti og kallaði "Hólsfjalla-heimsspeki."
HÓLSFJALLAHEIMSSPEKI.
Hér er komið nýtt hugtak yfir þá stefnu sem ég held að mikill hluti þjóðarinnar vilji sjá fram ganga.
Það sem ég hef kallað "allt sem amma kenndi".
Mikið lifandi gætum við íslensk þjóð átt gott líf, bara ef við byrjuðum strax að tileinka okkur kenningar Hólsfjallaheimsspekinnar.
Lærum að virða og elska Ísland og það sem landið og miðin gefa okkur. Hætta að elska bara allt sem er utanlands. 
Hamingjan býr með okkur sjálfum, hamingjan er allt í kring um okkur.
Hamingjan kemur nefnilega innanfrá.
Það sagði hún amma. Það er Hólsfjallaheimsspeki.
Valdemar Ásgeirsson.

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband