24.12.2008 | 22:39
Frá Blönduósi til Slovakiu.........
Útlendingar á Blönduósi.
Ég hef á undanförnum vikum verið að vinna með fólki frá Slóvakíu og Póllandi.
Það vekur athygli mína hvað fólkið virðist vera kátt og glatt.
Nú er staðan á krónunni þannig að miklum mun færri evrur fást fyrir mánaðarkaup þessa fólks.
Árið 2005 kostaði ein evra innan við 80 kr., nú kostar evra 160 krónur. (Gróft sagt.)
Þrátt fyrir þetta er, sem fyrr segir fólkið kátt.
Nú eru að vísu flestir að fara heim til sinna fyrri heimkynna.
Maðurinn / manneskjan, eins og hún er sköpuð, sama hvaðan hún kemur, virðist hafa alveg ótrúlegan hæfileika til þess að aðlagast aðstæðum.
Hætt er við að nú reyni á þennan hæfileika hjá fjölda íslendinga.
A.m.k. liggur alveg fyrir að aðstæður flestra íslendinga munu breytast verulega á næstu misserum.
Hvernig mun okkur ganga að takast á við breyttar aðstæður ?
Verðum við áfram kát og glöð ?
Flestum mun takast það. Öðrum alls ekki.
Íslendingar eru heimtufrek og tilætlunarsöm þjóð. Ofdekruð þjóð.
Við héldum að við gætum allt og ættum rétt á að fá allt.
Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, lýsti þessu prýðilega, þegar hann sagði um sína kynslóð í viðtali árið 2007:
"Sú kynslóð ólst upp við mikið frjálsræði en einnig við mikla vinnusemi. Hún fór út að leika sér á morgnana og var þar allan daginn, kom ekki heim fyrr en hún var kölluð í mat. HÚN TALDI AÐ ALLT VÆRI HÆGT OG VAR AÐ ÞVÍ LEYTI ALGJÖRLEGA HÖMLULAUS."
Björn Hauksson, Bjössi vinur minn, bakari í Hveragerði, lét þessi orð falla fyrir u.þ.b. 22 árum síðan:
"Það ætti að skylda alla íslendinga til þess að vinna a.m.k. eitt ár í fiski og annað við landbúnað."
Bjössi taldi að það myndi leiða til þess að fólk lærði á hverju þjóðin lifir, og yrði til þess að fólk gleymdi síður uppruna sínum. Og héldi sig þá frekar á jörðinni.
Hvað öllu líður, mun sannarlega reyna á íslenska þjóð á næstunni.
Aðallega andlegt atgervi þjóðarinnar.
Eigi okkur að takast að rífa okkur upp úr þeim vanda sem við höfum ratað í, verðum við að taka á öllu okkar. Auk þess þarf samstillt átak allrar þjóðarinnar. Samvinnu.
Valdemar Ásgeirsson.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.