Innlend framleiðsla, allir saman, haldast í hendur.

Auðkúlu..................

Íslensk þjóð horfir fram á hræðilega tíma um þessar mundir.
Tíma gjaldþrota fyrirtækja og fjölskyldna, tíma atvinnuleysis, tíma lækkandi launa / kaupmáttar, tíma okurvaxta og lausafjárskorts.
Afleiðingarnar verða að fjöldi fólks bugast, margir leiðast út í áfengisneytslu, sem svo aftur leiðir af sér margvísleg heilsufarsvandamál, sjálfsvíg, geðraskanir eins og þunglyndi svo e-ð sé nefnt.
Fjölskyldur klofna, leysast upp, hjónaskilnaðir verða enn tíðari, jafnvel ung börn missa heilsu sína. Heilsumissir þessa fólks verður aldrei bættur.

Nú tala ráðamenn nokkuð um mikilvægi íslenskrar framleiðslu.

En spurningar vakna:

Hvað veldur því að menn tala svo mikið um þessa hluti núna ?

Stjórnmálamenn og jafnvel heildsalar sem hafa verið ráðandi á íslenskum markaði gefa þjóðinni ráð „hægri-vinstri“ þessa dagana:

Versla það sem er framleitt í landinu.

Svo á þjóðin að standa saman, það er alveg númer eitt.

Mjög mikilvægt er að einstaklingarnir „haldi hverjir utan um annan“.

Fjölskyldurnar eiga að standa saman og gera nú eitthvað skemmtilegt og fallegt, saman. Ekki endilega eitthvað sem kostar peninga, það er alveg óþarfi.

Svo er líka mikilvægt að fólk tali saman og meira að segja prestar og annað kirkjunnar fólk er farið að standa fyrir samverustundum í kirkjum landsins, þar sem fólk á að koma saman og hughreysta hvort annað.

Takk prestar, eruð þið búnir að fatta að sumir áttu um sárt að binda  ?

 Fyrir mér hljómar þetta allt saman nú heldur undarlega.

Þessir sömu pólitíkusar börðust hatrammlega fyrir frjálsum og óheftum innflutningi á öllu því sem mönnum gat dottið í hug að flytja inn.

Þá skipti engu máli þó vitað væri að innflutningurinn myndi rústa innlendri framleiðslu og leggja þar af leiðandi af atvinnu fólks í heilum byggðalögum.

Ég nefni til dæmis verksmiðjurnar á Akureyri;  Gefjun, Iðunni, Heklu, skipasmíðina, stálsmíðina og fleira mætti nefna.

Á Selfossi og  á Hvolsvelli voru stórar húsgagnasmiðjur sem framleiddu hágæða húsgögn, þar voru líka stálsmiðjur sem framleiddu ýmis landbúnaðartæki eins og mykjudælur, tanka og margt fleira.

Í Hafnarfirði var gríðarlega umfangsmikil innlend framleiðsla á mörgum sviðum, Raftækjasmiðja Hafnarfjarðar, RafHa, er sennilega þekktasta vörumerkið. Hér er aðeins fátt eitt talið.

Nú er þetta allt horfið, þökk sé stjórnvitringum þessa lands.

Auk þessara verksmiðja voru svo fullt af minni smiðjum sem framleiddu ýmsar vörur, ég nefni lampa, iðnaðarljós, potta og pönnur, form fyrir bakarí, ýmiskonar plastvörur o. fl. o. fl.

Hvernig stóðu stjórnmálamenn (með heildsalaklíkuna að baki sér) að verki ?

Jú, fyrst var þeim sjónarmiðum haldið á lofti að hér yrðu innlendir framleiðendur að hafa aðhald, samkeppni. (Sömu sjónarmið og beint er að bændum í landinu þessi misserin.)

Síðan var innflutningurinn hafinn og í mörgum tilfellum tollalaus. Á sama tíma var innlendum framleiðendum gert að greiða háa tolla af því hráefni sem þeir þörfnuðust við sína framleiðslu.

Þetta hét svo samkeppni á jafnréttisgrundvelli.

Þegar allt var svo komið í óefni  í atvinnumálum þjóðarinnar fundu „stjórnvitringarnir“ nýja „lausn“, stóriðjuna með tilheyrandi virkjunum og óbætanlegum landspjöllum. Stóriðjan fær svo rafmagn á margfalt lægra verði en iðnaðurinn sem var verið að leggja af, en skapaði margfalt fleiri og fjölbreyttari störf.

Auk þess liggur nú fyrir að hverju starfi  í stóriðjunni kostar a.m.k. 200 milljónir króna að koma á fót. Við Húnvetningar höfum nú gott dæmi um hverju virkjanir skila fólkinu í byggðalögunum, ég segi og skrifa;  engu nema ósamstöðu úlfúð og leiðindum. Það er önnur saga.
Héldu menn í alvöru að þessi stefna gæti gengið ? Hvað hefur komið í ljós ? Gekk þetta upp ?

Svarið er NEI. Þjóðarskútan flaut með sofandi skipstjórn að feigðarósi.

Allt er komið í óefni, við blasa fjöldagjaldþrot fjölskyldna og fyrirtækja, með tilheyrandi harmi og sorg, sárindum, tilfinningalegu tjóni, fjárhagslegu tjóni, upplausn fjölskyldna, áfengisvandamálum, sjálfsvígum, og margvíslegum heilsufarsvandamálum.
Á þessu ber ábyrgð; núverandi ríkisstjórn, þjófahyskið í bönkunum, sem naut verndar ríkisstjórnarinnar og fyrri ríkisstjórna. Íhaldið og Framsóknar-íhaldið, græðgis-væðingar-flokkarnir.
Sama hvað Geir Hilmar Haarde segir, aftur og aftur.
Geir, Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson sátu við stórnvölin og voru aðalsmiðir einkavæðingar- og græðgisstefnunnar, það er staðreynd sem ekki verður breytt, sama hvað þessir menn reyna að bera af sér sakir.
Við hlið Geirs er svo setstur enn einn hrokagikkurinn, sem neitar að hlusta á fólkið í landinu og talar niður til alþýðu landsins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Hverjir blæða svo ?

Alþýða landsins, mest þeir sem minnst hafa á milli handa.

Gerum uppreisn strax. Burt með valdhafana. Nýja ríkisstjórn strax.

Um þessa hluti er hægt að hafa langt mál, en enginn nennir að lesa mjög langar greinar.

Ég læt þetta því duga að sinni.

Valdemar Ásgeirsson, bóndi  á   Auðkúlu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband