Signý Sigmundsdóttir á Miðfelli í Hrunamannahreppi.

Auðkúlu 27.12.2008.

Signý Sigmundsd., Ólafía Jóhannsdóttir og Einar Benediktsson.

Signý var fædd í Hrepphólum í Hreppum 29.oktober 1859.

Foreldrar hennar, Sigmundur og Rósa höfðu verið vinnuhjú hjá séra Jóni Högnasyni í Hrepphólum.

Signý fór í fóstur að Miðfelli, aðeins viku gömul.

Fermingarsystkyn Signýjar voru fimm, Signý fékk vitnisburðinn "dauf" meðan hin fermingarbörnin voru sögð "gáfuð".

Signý var einstaklega þægur krakki og duglegur en var þó meira fyrir lestur en líkamlegt erfiði.

Einhverntíma á árunum 1883-84, skrapp Signý til Reykjavíkur til þess að leita sér lækninga, hjá Jónassen og Schierbeck, brjósthimnubólgu að talið var.

Nokkrum árum síðar, sennilega 1887, fór Signý alfarin frá Miðfelli, fluttist suður á Grímsstaðaholt og var þar í lausamennsku, sem kallað var.

Síðar vann Signý hjá Önnu Granz, á saumastofu, og var þar einn vetur.

Lengi vann hún við vatnsburð en slíkt manndrápserfiði varð henni ofraun, hún tók að hnýtast í herðum og varð að lokum krypplingur.

Í fyrsta hluta ævisögu séra Árna Þórarinnssonar, FAGURT MANNLÍF, skrifar Þórbergu Þórðarson:

"Eitt kvöld, svalt og skuggalegt, á öndverðum vetri árið 1901, stafar óvæntum geisla á götu Signýjar. Það var reyndar atvilk, sem hún mun telja til hinna örlagaríkustu viðburða lífs síns. Þá hittir hún í fyrsta sinn einhverja gáfuðustu, göfugustu og gagnmerkustu konu, sem sögur hafa farið af, hér á landi bæði fyrr og síðar." Það var Ólafía Jóhannsdóttir.

Ólafía segir frá fyrstu fundum hennar og Signýjar, í bókini FRÁ MYRKRI TIL LJÓSS:

"Það kvöld eignaðist ég víst tryggustu vinkonuna, sem ég hef átt, Signýju, sem varð þjónustustúlka hjá okkur um vorið og síðan hefur alltaf falið mig í bænum sínum og mun gera það, þó að haf verði á milli okkar, þangað til við komum þar, sem engir þurfa lengur að skiljast".

Ólafía bjó hjá móðursystur sinni, Þorbjörgu Sveinsdóttur ljósmóður. Þorbjörg var systir Benedikts Sveinssonar sýslumanns og þingmanns með meiru.

Einar sonur Benedikts var um tíma á heimilinu hjá Þorbjörgu.

Þar voru því saman komnar undir einu þaki þrjár af mínum uppáhalds persónum úr sögnum 20. aldar, Signý, Ólafía og Einar Benediktsson skáld og athafnamaður.

Signý sinnti ásamt fleiru tveimur kúm sem Þorbjörg átti í fjósi.

Á unglinsárum sínum ræddu Einar og Ólafía gjarnan um trúmál og hefðu talist til efasemdar-manna í þeim efnum.

Það er svo eitt sinn á aðfangadagskvöldi jóla, að Þorbjörg er kölluð út í bæ til þess að sitja yfir konu á sæng. Einar, Signý og Ólafía eru þrjú sman í bænum á Skólavörðustígnum. Þetta er sennilega 1888.

Einari og Ólafíu er gengið fram í eldhús. Þar situr Signý í hnipri á bekk úti í horni og sötrar úr fanti.

Í "ungæðislegum þótta sínum" hugsar Einar; hvað Drottinn hafi hugsað með því að skapa svona veru. Ætli hún viti í minningu hvers jólanóttin er heilög haldin ?

Einar spyr:

Signý! Þykir þér gaman að lifa ?

Nei, svarar hún.

Leiðist þér lífið ?

Nei.

Langar þig að lifa ?

Nei.

Langar þig að deyja ?

Nei.

Hafa þér brugðist vonir ?

Nei.

Hefur þú þá átt nokkra von.

Jú. von, ekki vonir. Ég á eina von.

Hver er sú von ?

Að ég sé ein í tölu þeirra sem Jesú frelsari minn vill endurleysa.

Heldur þú að þú fáir þá von uppfyllta ?

Já, það veit ég.

Ólafía spyr: Viltu nú ekki Signý mín ekki fara að hátta ?

Bráðum fer ég að hátta. Önnur kýrin drakk ekki nema eina fötu en er vön að drekka tvær.

Góða mín, láttu kúna eiga sig. Við erum þinir húsbændur núna.

Þið eruð góðir húsbændur. En við eigum öll einn húsbónda, við og dýrin, hann fer ég ekki að svíkja núna á sjálfa jólanóttina. Það reyni ég að gera aldrei.

Hvað er þetta, segir Einar, andskotann, ekki ætlarðu að vaka yfir helvítis beljunni í alla nótt.

Ekki í alla nótt, hún verður búin að drekka úr fötunni svona um þrjúleytið.

Einar og Ólafía standa hrærð yfir fjósakonunni frá Miðfelli.

Eftir þetta fer Einar að gefa Signýju nánari gætur. Guð fer að leita á huga Einars á ný. Seinna sagði Einar að Signý hefði kennt sér að trúa.

Einar telur sig hafa fundið konu sem hljóti að búa yfir syndlausri sál.

Valdemar Ásgeirsson.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband