Blásum í básúnur, til sóknar.

Auðkúlu 01.01.2009.

Árið 2008 er liðið, með öllum þeim skelfilegu atburðum sem peningamenn og stjórnmálamenn þjóðarinnar hafa kallað yfir okkur, algerlega að óþörfu.

Þjóðin hefur ekki enn fengið að finna nema forsmekkinn af þeim ósköpum.

Enginn af þeim sem um stjórnartaumana halda, sjá nokkuð athugavert við sín störf. Hvorki á Alþingi, í Stjórnarráðinu eða í bönkunum.

Það fer í mínar fínustu taugar að heyra talað um fólk sem er að mótmæla sem "skríl og skrælingja".

Ég spyr, er ekki þá allt eins hægt að spyrja hvort fyrrnefndir peningamenn og stjórnmálamenn séu upphafsmenn mótmælana ? Eru þeir ekki skríllinn og skrælingjarnir.

Mikið starf bíður almennings, við að endurreisa efnahag og atvinnulíf þjóðarinnar.

Ekki má gefast upp, sjaldan eða aldrei hefur verið jafn bráðnauðsynlegt að alþýðan sýni dugnað og hugmyndaríki, og óskandi er að fólkinu í landinu verði gefinn getukraftur til þess að takast á við öll þau óþrjótandi verkefni sem bíða.

Ég sjálfur fer alltaf að hlakka til vorsins, með hækkandi sól, strax um áramót. Með hækkandi sól eykst jafnan getukraftur fólks.

Nóttin endar sumar sunna,

signir strendurnar.

Yfir lendur lífsins brunna,

leggur hendurnar.

-----------

Vetrar þilju hjaðnar hem,

hljóðnar byljastrengur.

Sér í yljar öllu sem.

andstætt vilja gengur.

Valdemar. K. Benónýsson.

----------------------

Auðurinn liggur við fótmál hvert,

ekkert er aðhafst, lítið er gert.

Frjó er hún jörðin, fús þér að gefa,

færandi gullið, ef væri hún snert.

Þú flýrð ekki burt, í dimmu og efa.

Blásu nú drengur í básúnur þær,

sem bíða í ofvæni að hvetja þig nær;

markinu eina sem þig gjörir að manni.

Mundu það maður, ef trúin er tær:

Engin takmörk þér sett, ekkert stöðvað þig fær.

Aflið býr í mannsins eigin ranni.

Valdemar Ásgeirsson.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband