1.1.2009 | 13:04
Blásum í básúnur, til sóknar.
Auðkúlu 01.01.2009.
Árið 2008 er liðið, með öllum þeim skelfilegu atburðum sem peningamenn og stjórnmálamenn þjóðarinnar hafa kallað yfir okkur, algerlega að óþörfu.
Þjóðin hefur ekki enn fengið að finna nema forsmekkinn af þeim ósköpum.
Enginn af þeim sem um stjórnartaumana halda, sjá nokkuð athugavert við sín störf. Hvorki á Alþingi, í Stjórnarráðinu eða í bönkunum.
Það fer í mínar fínustu taugar að heyra talað um fólk sem er að mótmæla sem "skríl og skrælingja".
Ég spyr, er ekki þá allt eins hægt að spyrja hvort fyrrnefndir peningamenn og stjórnmálamenn séu upphafsmenn mótmælana ? Eru þeir ekki skríllinn og skrælingjarnir.
Mikið starf bíður almennings, við að endurreisa efnahag og atvinnulíf þjóðarinnar.
Ekki má gefast upp, sjaldan eða aldrei hefur verið jafn bráðnauðsynlegt að alþýðan sýni dugnað og hugmyndaríki, og óskandi er að fólkinu í landinu verði gefinn getukraftur til þess að takast á við öll þau óþrjótandi verkefni sem bíða.
Ég sjálfur fer alltaf að hlakka til vorsins, með hækkandi sól, strax um áramót. Með hækkandi sól eykst jafnan getukraftur fólks.
Nóttin endar sumar sunna,
signir strendurnar.
Yfir lendur lífsins brunna,
leggur hendurnar.
-----------
Vetrar þilju hjaðnar hem,
hljóðnar byljastrengur.
Sér í yljar öllu sem.
andstætt vilja gengur.
Valdemar. K. Benónýsson.
----------------------
Auðurinn liggur við fótmál hvert,
ekkert er aðhafst, lítið er gert.
Frjó er hún jörðin, fús þér að gefa,
færandi gullið, ef væri hún snert.
Þú flýrð ekki burt, í dimmu og efa.
Blásu nú drengur í básúnur þær,
sem bíða í ofvæni að hvetja þig nær;
markinu eina sem þig gjörir að manni.
Mundu það maður, ef trúin er tær:
Engin takmörk þér sett, ekkert stöðvað þig fær.
Aflið býr í mannsins eigin ranni.
Valdemar Ásgeirsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2008 | 08:15
Ofmenntun - Ofmetnun.
Auðkúlu á gamlársdg 2008.
Nú berast fréttir af því að aðsókn í Háskóla landsins slái öll fyrri met. Það þýðir að að fáum árum liðnum mun útskrifast fjöldi fólks með allskyns fínar gráður.
Menntun "á æðra stigi" er forsenda þess að þjóðinni takist að vinna sig upp úr efnahagserfiðleikunum sem nú blasa við.
Þetta er setnig sem heyrist æ oftar.
Á Alþingi Íslendinga sitja í meirihluta hámenntaðar manneskjur. Stjórnmálafræðingar, hagfræðingar, lögfræðingar o.sv.frv.
Ég spyr: Hvernig hefur þessu fólki nú tekist til við að stjórna landinu ?
Svarið er: Herfilega.
Inni í bönkunum er sneysafullt af viðskiptafræðingum, hagfræðingum, rekstrarfræðingum, lögfræðingum o.sv.frv.
Samt fór sem fór.
Hvað hjálpaði / gagnaðist "hin æðri menntun" ? Kom menntunin yfirleitt að e-u gagni ?
Er ekki þjóðin bara um of menntuð, eða kolrangt menntuð ?
Mér sýnist að margir þoli ekki langa skólagöngu eða ofmenntun. Fólk ofmetnast. Það sýnir sig vel á Alþingi. Þeir sem eru í forsvari koma fram með hroka, hreyta ónotum í fólk, kunna ekki að koma fram af einlægni, eru dónalegir og úrillir.
Ofmetnaðir.
Ég fullyrði: Hefðu bændur, sjómenn, iðnaðarmenn, fiskvinnslufólk og annað verkafólk setið á Alþingi Íslendinga á undanförnum árum, og haldið á stjórnartaumunum, hefði aldrei farið eins illa f. þjóðinni.
Nú er svo komið að segja má með nokkrum rökum að það sem við köllum "samfélag þjóðar", sé varla til lengur.
Þá á ég við það að þegar samfélagið hefur þróast út í það; að hver hugsar um sig, hver og einn er úti í sínu horni og lítur ekki til náungans eða nágrannans, samkennd og samhjálp er að mestu horfin, er tæplega lengur hægt að tala um almennilegt samfélag þjóðar.
Hver og einn hefur hugsað um að skara eld að sinni eigin köku, maka krókinn, í eigin þágu, fyrir sjálfan sig og engann nema sjálfan sig.
Virðing fyrir landi og þjóð hefur farið þverrandi. Menn hafa ruðst um landið, sprengt það og sökkt undir vatn, eins hafa menn ruðst hver yfir annan með þvílíkum hroka og yfirgangi að manni hefur ofboðið.
Auðmennirnir héldu að þeir gætu allt, og mættu allt, að þeim leyfðist hvað sem er. Siðferði er algerlega fokið út í veður og vind.
T.d: Hvernig getur verið vit í því, eða gaman af því f. viðkomandi að brjóta niður tillölulega nýleg íbúðarhús með beltagröfum, bara til þess að geta byggt á lóðinni ? Á sama tíma og náunginn er húsnæðislaus. Hvaða maður með viti brýtur niður hús í góðu lagi ? Hvernig maður er það sem hendir húsi í ruslið ?
Og hvernig eru viðkomandi bygginganefndir saman settar ? Hví gefa þær leyfi f. þessháttar framkvæmdum ?
Hver hefur gaman af því að aka um götur á 15-25 milljón króna bíl ? Til hvers ?
Tæpast menntaður, upplýstur maður ?
Í öllum bænum, hægjum á menntunni, og ofmetnaðinum sem fylgir oft, eða tökum a.m.k. upp annars konar menntun / fræðslu.
Tökum upp kennslu í HÓLSFJALLA-HEIMSSPEKI í háskólum landsins.
Gerum það strax í byrjun ársins 2009.
Valdemar Ásgeirsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2008 | 20:25
Valdemar Ásgeirsson óskar.......
Auðkúlu 30.12.2008.
Valdemar Ásgeirsson, óskar vinum, ættingjum og viðskiptvinum, gleðilegrar hátíðar, með innil. þökkum f. allt á líðandi ári.
Sérstakar þakkir fá þeir sem hafa nennt að lesa bloggið og horfa á
LÍF OG LAND á ÍNN.
Valdemar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2008 | 20:52
Sameiningar - Lausnarorðið
Auðkúlu 29.12.2008.
Mjólkurstöðin á Blönduósi var sameinuð Mjólkursamsölunni í R-vík fyrir nokkrum árum. Af því átti að hljótast margvíslegt hagræði og heimamönnum var sagt að verið væri að skjóta sterkari fótum undir stöðina. Margir höfðu efasemdir um það og fullyrtu að sameiningin væri upphafið á endalokum rekstrarins.
Það hefur nú komið á daginn.
Sameiningar hafa um hríð verið ein "allsherjar-lausnin" sem fræðingar landsins hafa mikið hamrað á. Sameiningar, stærri einingar, hafa átt að leysa allan vanda, einkum á landsbyggðinni.
Annað hefur sannarl. komið á daginn. Sameiningar hafa nánast aldrei skilað nokkrum árangri.
Varðandi Mjólkurstöðina leyfi ég mér að fullyrða að aldrei stóð til hjá MS að reka hana til frambúðar. Frá upphafi stóð til að leggja hana niður og flytja starfsemina suður.
Svona er farið að:
1. Að sameiningu lokinni er farið yfir reksturinn og "yfirvegaðar og skynsamlegar" ákvarðanir teknar um hvernig skuli "hagrætt".
2. Teknar eru út úr framleiðslunni nokkrar vöruteg. til þess að gera framleiðsluna "sérhæfðari og skilvirkari".
3. Verksmiðjunni er að lokum gert að framl. vörur með mjög lága eða enga framlegð.
4. Fljótlega má sjá á ársreikningum að verksmiðjan er ekki að skila nægum hagnaði.
5. Taka verður "ábyrga ákvörðun" um hvað gera skuli, svona rekstur gengur ekki.
6. Takmarkinu er náð. Engin leið er önnur en enn frekari sameining.
7. Það sem stefnt var að í upphafi er í höfn. Verksmiðjan lögð niður.
Fólkið í héraðinu, sem átti stöðina, og starfsmenn, sitja eftir með sárt ennið.
Valdemar Ásgeirsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2008 | 22:11
Stefanía Stefánsdóttir, Bergþórugötu 33.
Auðkúlu 27. des. 2008.
Stefanía Stefánsdóttir átti þessa vísu í fórum sínum:
Lærðu að bera lífsins kjör.
Líttu glöð á veginn.
Láttu þér vera létt um för.
Lifðu sólarmegin.
Höf. ókunnur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2008 | 22:05
Signý Sigmundsdóttir á Miðfelli í Hrunamannahreppi.
Auðkúlu 27.12.2008.
Signý Sigmundsd., Ólafía Jóhannsdóttir og Einar Benediktsson.
Signý var fædd í Hrepphólum í Hreppum 29.oktober 1859.
Foreldrar hennar, Sigmundur og Rósa höfðu verið vinnuhjú hjá séra Jóni Högnasyni í Hrepphólum.
Signý fór í fóstur að Miðfelli, aðeins viku gömul.
Fermingarsystkyn Signýjar voru fimm, Signý fékk vitnisburðinn "dauf" meðan hin fermingarbörnin voru sögð "gáfuð".
Signý var einstaklega þægur krakki og duglegur en var þó meira fyrir lestur en líkamlegt erfiði.
Einhverntíma á árunum 1883-84, skrapp Signý til Reykjavíkur til þess að leita sér lækninga, hjá Jónassen og Schierbeck, brjósthimnubólgu að talið var.
Nokkrum árum síðar, sennilega 1887, fór Signý alfarin frá Miðfelli, fluttist suður á Grímsstaðaholt og var þar í lausamennsku, sem kallað var.
Síðar vann Signý hjá Önnu Granz, á saumastofu, og var þar einn vetur.
Lengi vann hún við vatnsburð en slíkt manndrápserfiði varð henni ofraun, hún tók að hnýtast í herðum og varð að lokum krypplingur.
Í fyrsta hluta ævisögu séra Árna Þórarinnssonar, FAGURT MANNLÍF, skrifar Þórbergu Þórðarson:
"Eitt kvöld, svalt og skuggalegt, á öndverðum vetri árið 1901, stafar óvæntum geisla á götu Signýjar. Það var reyndar atvilk, sem hún mun telja til hinna örlagaríkustu viðburða lífs síns. Þá hittir hún í fyrsta sinn einhverja gáfuðustu, göfugustu og gagnmerkustu konu, sem sögur hafa farið af, hér á landi bæði fyrr og síðar." Það var Ólafía Jóhannsdóttir.
Ólafía segir frá fyrstu fundum hennar og Signýjar, í bókini FRÁ MYRKRI TIL LJÓSS:
"Það kvöld eignaðist ég víst tryggustu vinkonuna, sem ég hef átt, Signýju, sem varð þjónustustúlka hjá okkur um vorið og síðan hefur alltaf falið mig í bænum sínum og mun gera það, þó að haf verði á milli okkar, þangað til við komum þar, sem engir þurfa lengur að skiljast".
Ólafía bjó hjá móðursystur sinni, Þorbjörgu Sveinsdóttur ljósmóður. Þorbjörg var systir Benedikts Sveinssonar sýslumanns og þingmanns með meiru.
Einar sonur Benedikts var um tíma á heimilinu hjá Þorbjörgu.
Þar voru því saman komnar undir einu þaki þrjár af mínum uppáhalds persónum úr sögnum 20. aldar, Signý, Ólafía og Einar Benediktsson skáld og athafnamaður.
Signý sinnti ásamt fleiru tveimur kúm sem Þorbjörg átti í fjósi.
Á unglinsárum sínum ræddu Einar og Ólafía gjarnan um trúmál og hefðu talist til efasemdar-manna í þeim efnum.
Það er svo eitt sinn á aðfangadagskvöldi jóla, að Þorbjörg er kölluð út í bæ til þess að sitja yfir konu á sæng. Einar, Signý og Ólafía eru þrjú sman í bænum á Skólavörðustígnum. Þetta er sennilega 1888.
Einari og Ólafíu er gengið fram í eldhús. Þar situr Signý í hnipri á bekk úti í horni og sötrar úr fanti.
Í "ungæðislegum þótta sínum" hugsar Einar; hvað Drottinn hafi hugsað með því að skapa svona veru. Ætli hún viti í minningu hvers jólanóttin er heilög haldin ?
Einar spyr:
Signý! Þykir þér gaman að lifa ?
Nei, svarar hún.
Leiðist þér lífið ?
Nei.
Langar þig að lifa ?
Nei.
Langar þig að deyja ?
Nei.
Hafa þér brugðist vonir ?
Nei.
Hefur þú þá átt nokkra von.
Jú. von, ekki vonir. Ég á eina von.
Hver er sú von ?
Að ég sé ein í tölu þeirra sem Jesú frelsari minn vill endurleysa.
Heldur þú að þú fáir þá von uppfyllta ?
Já, það veit ég.
Ólafía spyr: Viltu nú ekki Signý mín ekki fara að hátta ?
Bráðum fer ég að hátta. Önnur kýrin drakk ekki nema eina fötu en er vön að drekka tvær.
Góða mín, láttu kúna eiga sig. Við erum þinir húsbændur núna.
Þið eruð góðir húsbændur. En við eigum öll einn húsbónda, við og dýrin, hann fer ég ekki að svíkja núna á sjálfa jólanóttina. Það reyni ég að gera aldrei.
Hvað er þetta, segir Einar, andskotann, ekki ætlarðu að vaka yfir helvítis beljunni í alla nótt.
Ekki í alla nótt, hún verður búin að drekka úr fötunni svona um þrjúleytið.
Einar og Ólafía standa hrærð yfir fjósakonunni frá Miðfelli.
Eftir þetta fer Einar að gefa Signýju nánari gætur. Guð fer að leita á huga Einars á ný. Seinna sagði Einar að Signý hefði kennt sér að trúa.
Einar telur sig hafa fundið konu sem hljóti að búa yfir syndlausri sál.
Valdemar Ásgeirsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2008 | 09:02
Spámaður ?
Auðkúlu 26.12.2008.
Nú líður að áramótum. Það styttist því í það að Völva Vikunnar fari að birta spá sína f. komandi ár.
Það er nú sennilega e-ð í mannssálinni, að vilja líta til baka um áramót, og líta einnig fram á veginn og reyna að meta stöðuna. Spá.
Menn og konur eru náttúrulega mis miklir spámenn og enginn er spámaður í sínu föðurlandi.
Þ.e. enginn hlustar á spár nágranna síns, einkum þó ef þær hljóma ekki vel í eyrum hlustandans.
Það, hvernig til tekst með spár fer líka mjög eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni.
Nú, um þessi áramót er vandalítið að gera spá fyrir íslenska þjóð, spá fyrir árið 2009. En ekki er víst að allir vilji heyra.
Spá fyrir árið 2009, kafli 1:
Vextir verða áfram háir. Einnig verðbólga.
Mikið verður um gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja.
Atvinnuleysi eykst verulega á útmánuðum.
Á Hörpu verða á milli 30- og 40 þúsund manns án atvinnu.
Kjör þeirra sem halda vinnu sinni munu versna verulega.
Strax í byrjun Þorra ná nauðungarsölur sögulegu hámarki.
Fjöldi fjölskyldufeðra- og mæðra munu standa á götunni með fjölskyldur sínar.
Þetta mun fara mjög illa með fjölskyldur landsins, einkum börn og þá sem eru ekki sterkir fyrir.
Geðheilsa þegnanna mun versna til muna, en sífellt erfiðara verður fyrir þetta fólk að fá aðstoð sálfræðinga og annara sérfræðinga.
Drykkjuskapur og eiturlyfjanotkun eykst, með tilheyrandi harmleikjum.
Drykkjufólki og lyfjasjúklingum og útigngsfólki verður í stórauknum mæli vísað frá sjúkrahúsum og meðferðarheimilum.
Sjálsvígum fjölgar.
Tannhirða fólks versnar, með neikvæðum hliðarverkunum á fjölmörgum sviðum. Heilsufari þjóðarinnar hrakar ótrúlega.
Glæpum fjölgar.
Spilling verður áfram gríðarleg í bankakerfinu.
Alþingi mun ekki ná að friða þjóðina, eða ná neinum sáttum við hina vinnandi stétt.
U.þ.b. 10 - 15.000 manns munu yfirgefa landið á árinu.
Hver mun hugsa um sig, vegna skorts á trausti. Einkum milli þings og þjóðar.
------------------------------------
Meira síðar.
Valdemar Ásgeirsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2008 | 08:14
Íslenska konan. - Jól fyrr og nú.
Auðkúlu 26.12.2008.
Kona ein, hér í héraði sagði mér í vikunni sögu frá heimili eiginmanns síns.
Sögu frá þeim tíma þegar maðurinn hennar var að alast upp ásamt systkinum sínum á sveitabæ hér frammi í Húnvetnskum dal.
Systkinin eru að mig minnir sjö eða níu, skiptir ekki öllu máli.
Þegar Margrét, húsmóðirin, móðir barnanna, var að að undirbúa jólin, vann hún oft langt fram á nætur. Mestur friður var eftir að börnin voru sofnuð.
Einn sonurinn vaknaði þó ævinlega þegar leið á kvöldið og fór fram-úr og hjálpaði mömmu sinni í eldhúsinu, við bakstur, matargerð, þrif og annað.
Falleg saga.
-----------------------------------------------------------------------------------------
Þessi saga rifjaði upp, uppvaxtarár mín í Sunnlenskri sveit, Landsveitinni, og jólaundirbúninginn heima.
Ófáar nætur stóð hún mamma mín við bakstur og matargerð, þrif, jafnvel málningarvinnu, veggfóðrun og skreytingar á heimilinu.
Hún bakaði margar gerðir af smákökum; piparkökur, tvöfaldar smákökur, (mömmukökur) smurðar saman með smjörkremi, í mörgum litum, vanilluhringi, loftkökur, hálfmána og margt fleira.
Svo voru tertur; lagtertur, brúnar og hvítar, auk stórra tertna s.s. marengs og rjómatertna.
Mamma kastaði ekki til höndunum, bakkelsið var einfaldlega fyrsta flokks.
Á aðfangadagskvöld var svo lambalæri með öllu tilheyrandi og heimagerður rjómaís (frystur í sérstöku formi í salti og snjó, því enginn var frystirinn) eða heimatilbúinn vanilluhringur með bláberjum.
Á jóladag heimareykt hangikjöt, heimabakaðar flatkökur af bestu gerð o.m.fl.
Mamma sá til þess að allir krakkarnir ættu hrein og straujuð falleg spariföt, sem við prýddumst um jólin.
Mikið af fatnaði okkar var saumaður heima og svo haganlega gerður að talað var um, hvað við krakkarnir í Holtsmúla værum ævinlega fínt til höfð og hrein.
Allt þetta gerði hún mamma, og við miklu lakari aðstæður en flestir búa við í dag.
Þegar árin hennar mömmu urðu fleiri, tóku systur mínar náttúrulega nokkurn þátt í undirbúningi og léttu undir með mömmu.
Geta má nærri um hvað þetta allt hefur verið mikil vinna.
Þetta var fórnfúst starf Íslenskrar móður.
Nú er elsku mamma orðin 77 ára gömul og enn er hún að láta gott af sér leiða.
Pabbi hafði til allt kjöt, saltaði og reykti. Það var mikið búsældarlegt í reykkofanum hans pabba þegar kom fram á aðventu.
Eins var með það, pabbi vann kjötið af alúð og vandvirkni og útkoman varð eftir því.
Á Þorláksmessu fórum við krakkarnir gjarnan með pabba í gegningarnar, og þá var reynt að búa í haginn fyrir hátíðina, t.d. að leysa meira hey úr stabbanum, svo ekki þyrfti að eyða tíma í það yfir hátíðardagana.
Allar skepnur, kindur og kýr fengu svo betri töðuna á hátíðinni.
Jólahátíðin heima var alltaf einstaklega falleg, enda komu eldri systur mínar oftast heim til þess að vera yfir jólin, og löngu eftir að þær höfðu sjálfar hafið sambúð og eignast eigið heimili.
Mér sjálfum fannst alltaf að eitthvað yfirskilvitlegt svifi yfir bænum okkar, gott ef ekki sjálfur Guð og englarnir voru ekki sérstaklega nærri okkur á jólum.
Á þann veg voru tilfinningar ungs og draumlynds drengs.
Ég trúi að fórnfýsi foreldra minna í garð okkar krakkanna, hafi orðið okkur ómetanlegt veganesti sem gott er að búa að.
Minningin sannarlega yljar.
Ég er yngstur okkar systkynanna, á þrjár systur sú elsta er 11 árum eldri en ég.
Systur mínar leiddu mig og vernduðu, með þeim átti ég margar yndislegar stundir.
Ég er því alinn upp með konum, konum sem ávalt voru mér góðar og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að alast upp með.
Pabbi minn er dáinn, hann létst skyndilega á vordögum 1989.
Föðurafa mínum kynntist ég ekki, hann dó þegar ég var á fjórða ári.
Föðurömmu mína þekkti ég ekki mikið enda var hún orðinn legusjúklingur þegar ég fór að eignast einhverja glóru, hún lá á Hrafnistu.
Móðurafa minn þekkti ég ekki náið.
Móðurömmu mína þekkti ég vel og þáði hjá henni góð heilræði.
Ungur eignaðist ég svo yndislega konu, sannkallað tryggðatröll.
Hún hefur nú verið mér vinur og sálufélagi í rúm 25 ár, og staðið við hlið mér og stutt án skilyrða, í öllu okkar bjaki, öll þessi ár.
Það má því segja að konur hafi leikið stórt hlutverk í lífi mínu.
Óhætt er að segja að ekki hafa þær valdið mér vonbrigðum.
Ég sannarlega hef fengið að kynnast; "Íslensku konunni sem sem mig elskaði og helgaði sitt líf."
Ég birti hér texta Ómars Ragnarssonar, sem hann samdi við lag Billys Joels og Pálmi Gunnarsson söng svo fallega fyrir nokkrum árum:
Íslenska konan
Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan sem ól þig og þér helgar sitt líf.
Með landnemum sigldi hún um svarrandi haf.
Hún sefaði harma, hún vakti er hún svaf.
Hún þerraði tárin hún þerraði blóð.
Hún var íslenska konan sem allt á að þakka vor þjóð.
Ó, hún var ambáttin hljóð
hún var ástkonan rjóð
hún var amma svo fróð.
Ó, athvarf umrenningsins
inntak hjálpræðisins
líkn frá kyni til kyns.
Hún þraukaði hallæri, hungur og fár.
Hún hjúkraði og stritaði gleðisnauð ár
Hún enn í dag fórna sér endalaust má.
Hún er íslenska konan sem gefur þér allt sem hún á.
Ó, hún er brúður sem skín
Hún er barnsmóðir þín.
Hún er björt sólarsýn.
Ó, hún er ást, hrein og tær
Hún er alvaldi kær.
Eins og Guðsmóðir skær.
Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
Þú veist hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.
En sólin hún hnígur og sólin hún rís.
Og sjá þér við hlið er þín hamingjudís,
sem ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar, sem ann þér og þér helgar sitt líf.
Ómar Ragnarsson.
------------------------------------------
Valdemar Ásgeirsson.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2008 | 11:40
Vísur eftir Gísla frá Uppsölum.
Auðkúlu 25.12.2008.
Fallegar vísur úr smiðju hins fátæka einstæðings, Gísla á Uppsölum í Selárdal.
Fátæka segi ég, kannske ekki svo mjög.
Jólin færa frið til manns, - /
fegurð, næra hjarta. /
Ljósið kæra lausnarans /
ljómar skæra, bjarta. /
Ljúfi Drottinn lýstu mér
svo lífsins veg ég finni.
Láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
Valdemar Ásgeirsson.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2008 | 10:40
Gleðileg jól.
Auðkúlu 25.12.2008.
Valdemar Ásgeirsson, Auðkúlu, óskar; vinum, ættingjum, viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
Ég bið þig Guð að gefa oss frið.
Gleði í hjarta, öll þess þörfnumst við.
Á sjálfa jólanótt ég friðinn finn.
Ég signi svona, yfir drenginn minn.
V.K.T.Á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)