Færsluflokkur: Bloggar

Innlend framleiðsla, allir saman, haldast í hendur.

Auðkúlu..................

Íslensk þjóð horfir fram á hræðilega tíma um þessar mundir.
Tíma gjaldþrota fyrirtækja og fjölskyldna, tíma atvinnuleysis, tíma lækkandi launa / kaupmáttar, tíma okurvaxta og lausafjárskorts.
Afleiðingarnar verða að fjöldi fólks bugast, margir leiðast út í áfengisneytslu, sem svo aftur leiðir af sér margvísleg heilsufarsvandamál, sjálfsvíg, geðraskanir eins og þunglyndi svo e-ð sé nefnt.
Fjölskyldur klofna, leysast upp, hjónaskilnaðir verða enn tíðari, jafnvel ung börn missa heilsu sína. Heilsumissir þessa fólks verður aldrei bættur.

Nú tala ráðamenn nokkuð um mikilvægi íslenskrar framleiðslu.

En spurningar vakna:

Hvað veldur því að menn tala svo mikið um þessa hluti núna ?

Stjórnmálamenn og jafnvel heildsalar sem hafa verið ráðandi á íslenskum markaði gefa þjóðinni ráð „hægri-vinstri“ þessa dagana:

Versla það sem er framleitt í landinu.

Svo á þjóðin að standa saman, það er alveg númer eitt.

Mjög mikilvægt er að einstaklingarnir „haldi hverjir utan um annan“.

Fjölskyldurnar eiga að standa saman og gera nú eitthvað skemmtilegt og fallegt, saman. Ekki endilega eitthvað sem kostar peninga, það er alveg óþarfi.

Svo er líka mikilvægt að fólk tali saman og meira að segja prestar og annað kirkjunnar fólk er farið að standa fyrir samverustundum í kirkjum landsins, þar sem fólk á að koma saman og hughreysta hvort annað.

Takk prestar, eruð þið búnir að fatta að sumir áttu um sárt að binda  ?

 Fyrir mér hljómar þetta allt saman nú heldur undarlega.

Þessir sömu pólitíkusar börðust hatrammlega fyrir frjálsum og óheftum innflutningi á öllu því sem mönnum gat dottið í hug að flytja inn.

Þá skipti engu máli þó vitað væri að innflutningurinn myndi rústa innlendri framleiðslu og leggja þar af leiðandi af atvinnu fólks í heilum byggðalögum.

Ég nefni til dæmis verksmiðjurnar á Akureyri;  Gefjun, Iðunni, Heklu, skipasmíðina, stálsmíðina og fleira mætti nefna.

Á Selfossi og  á Hvolsvelli voru stórar húsgagnasmiðjur sem framleiddu hágæða húsgögn, þar voru líka stálsmiðjur sem framleiddu ýmis landbúnaðartæki eins og mykjudælur, tanka og margt fleira.

Í Hafnarfirði var gríðarlega umfangsmikil innlend framleiðsla á mörgum sviðum, Raftækjasmiðja Hafnarfjarðar, RafHa, er sennilega þekktasta vörumerkið. Hér er aðeins fátt eitt talið.

Nú er þetta allt horfið, þökk sé stjórnvitringum þessa lands.

Auk þessara verksmiðja voru svo fullt af minni smiðjum sem framleiddu ýmsar vörur, ég nefni lampa, iðnaðarljós, potta og pönnur, form fyrir bakarí, ýmiskonar plastvörur o. fl. o. fl.

Hvernig stóðu stjórnmálamenn (með heildsalaklíkuna að baki sér) að verki ?

Jú, fyrst var þeim sjónarmiðum haldið á lofti að hér yrðu innlendir framleiðendur að hafa aðhald, samkeppni. (Sömu sjónarmið og beint er að bændum í landinu þessi misserin.)

Síðan var innflutningurinn hafinn og í mörgum tilfellum tollalaus. Á sama tíma var innlendum framleiðendum gert að greiða háa tolla af því hráefni sem þeir þörfnuðust við sína framleiðslu.

Þetta hét svo samkeppni á jafnréttisgrundvelli.

Þegar allt var svo komið í óefni  í atvinnumálum þjóðarinnar fundu „stjórnvitringarnir“ nýja „lausn“, stóriðjuna með tilheyrandi virkjunum og óbætanlegum landspjöllum. Stóriðjan fær svo rafmagn á margfalt lægra verði en iðnaðurinn sem var verið að leggja af, en skapaði margfalt fleiri og fjölbreyttari störf.

Auk þess liggur nú fyrir að hverju starfi  í stóriðjunni kostar a.m.k. 200 milljónir króna að koma á fót. Við Húnvetningar höfum nú gott dæmi um hverju virkjanir skila fólkinu í byggðalögunum, ég segi og skrifa;  engu nema ósamstöðu úlfúð og leiðindum. Það er önnur saga.
Héldu menn í alvöru að þessi stefna gæti gengið ? Hvað hefur komið í ljós ? Gekk þetta upp ?

Svarið er NEI. Þjóðarskútan flaut með sofandi skipstjórn að feigðarósi.

Allt er komið í óefni, við blasa fjöldagjaldþrot fjölskyldna og fyrirtækja, með tilheyrandi harmi og sorg, sárindum, tilfinningalegu tjóni, fjárhagslegu tjóni, upplausn fjölskyldna, áfengisvandamálum, sjálfsvígum, og margvíslegum heilsufarsvandamálum.
Á þessu ber ábyrgð; núverandi ríkisstjórn, þjófahyskið í bönkunum, sem naut verndar ríkisstjórnarinnar og fyrri ríkisstjórna. Íhaldið og Framsóknar-íhaldið, græðgis-væðingar-flokkarnir.
Sama hvað Geir Hilmar Haarde segir, aftur og aftur.
Geir, Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson sátu við stórnvölin og voru aðalsmiðir einkavæðingar- og græðgisstefnunnar, það er staðreynd sem ekki verður breytt, sama hvað þessir menn reyna að bera af sér sakir.
Við hlið Geirs er svo setstur enn einn hrokagikkurinn, sem neitar að hlusta á fólkið í landinu og talar niður til alþýðu landsins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Hverjir blæða svo ?

Alþýða landsins, mest þeir sem minnst hafa á milli handa.

Gerum uppreisn strax. Burt með valdhafana. Nýja ríkisstjórn strax.

Um þessa hluti er hægt að hafa langt mál, en enginn nennir að lesa mjög langar greinar.

Ég læt þetta því duga að sinni.

Valdemar Ásgeirsson, bóndi  á   Auðkúlu.


Til eru fræ......og lítil börn sem aldrei verða menn.

Auðkúlu.............

Ætli ríkisstjórn og sveitarstjórnir Íslands að halda sig við það að gera ekki neitt að gagni til hjálpar fjölskyldunum í landinu, verða afleiðingarnar hræðilegar.
Lækkun greiðslubyrði á fasteignatryggðum lánum um 5-15%, til skamms tíma hjálpar ekkert.
Ekki þegar sömu lán hafa hækkað um 90-100% að undanförnu.
Því miður kæra vinkona, Jóhanna Sigurðardóttir.

Ingvi Örn, fyrrverndi starfsmaður Seðlabanka og AGS, og núverandi starfsmaður Landsbanka segir að gjaldþrot eigi að banna með lögum í a.m.k. 6-9 næstu mánuði, eða á meðan reynsla fæst á "fleytingu" krónunnar.
Fleiri sérfræðingar hafa komið fram með sömu tillögur.
Ríkisstjórn Íslands hlustar ekki á það frekar en annað. Hroka-oddvitarnir vita nú líkast til betur.
Frekar á að horfa á fyrirtækin gufa upp og þekkinguna sem býr innan fyrirtækjanna gufa upp.
Fjölskyldur tapa eignum sínum og það sem verra er; tapa heiðri sínum, stolti, reisn og virðingu.
M.ö.o., gera frískt og dugandi, kappsmikið og framsækið og hamingjusamt fólk að hálfgerðum eða algerum aumingjum.

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm: Að falla í jörð en verða aldrei blóm.

Þarf það að vera svo ?  Nei, það þarf að einungis að hlúa að fræjunum, eigi þau að verða blóm. Blóm sem geta staðið frísk og keik um langa tíð, sjálfum sér og öðrum til ómældrar gleði.

Jóhnna og Ingibjörg, takið fram garðyrkjuhanskana og þreifið á moldinni, enn betra er þó að vera berhentur. Kann að ske, að þið náið jarðsambandi.
Talið við reynda, gamla, góða garðyrkjumenn, vanti ykkur ráð.


Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.



Davíð Stefánsson frá Fagraskógi
1895-1964

Góðir Íslendingar, eigið góðar stundir.  Valdemar Ásgeirsson.

Mikilmenni......Lykilmenni.....

Auðkúlu..............

Sumir fæðast mikilmenni, öðrum er ýtt út í að verða mikilmenni.

Alþingi Íslands, eða þeir sem þar sitja, sýndu íslenskri þjóð það mjög greinilega s.l. fimmtudagskvöld, þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt, að á Alþingi sitja engin mikilmenni. Engin.
Það kemur sér illa f. hinn venjulega íslending sem situr nú í skuldafeni, þurfa nú að bæta við sig enn frekari sköttum og verðbótum.

Ríkissjóður ætlar að ná inn 3,5 milljörðum með auknum sköttum.
Áhrifin á verðbóta-útreikninginn eru þau að skuldir heimilanna hækka um 7 milljarða.

Aumt að vita til þess að Lykillinn að gæfu þjóðarinnar sé í höndum svona fólks.
Aumlegur er "jafnaðarmannaflokkurinn" Samfylkingin.
Aumlegar eru Ingibjörg og Jóhanna.

Íslands óhamingju verður allt að vopni um þessar mundir.

Valdemar Ásgeirsson.

Vanþroski stjórnmálamanna.

Auðkúlu.......

Vanþroski stjórnmálamanna.

Getur verið að til setu á Alþingi íslendinga veljist gjarnan vanþroskað fólk ?

Fólk sem ekki veit sín takmörk en einblínir um of á vegtyllur.

Ég hef oft velt þessu fyrir mér.

Í þorpi einu úti á landi var starfsmaður hjá Bifreiðaeftirliti Ríkisins, hinu sálaða.
Manninn skulum við bara kalla Jón.
Jón var að ég held, ósköp venjulegur, ágætur maður.
Þegar hann var kominn í einkennisbúninginn sem menn báru hjá Bifreiðaeftirlitinu í den tíð, brúnan búning með gylltum hnöppum, virðulega einkennishúfu eins og lögreglumenn höfðu við störf, virtist hann algerlega umhverfast.

Menn fengu engan frið, Jón fór um sveitir með klippur og klippti af bílum í "store banner", og nánast ómögulegt var orðið að koma bílum athugasemdalaust í gegn um skoðun.
Einstaka vinir Jóns áttu þó góða möguleika á að fá skoðun á bíla sína.

M.ö.o., Jón kunni ekki að fara með vald sitt og misnotaði það gróflega.
Jón kom hinsvegar alls ekki auga á þetta sjálfur, öðru nær, hann taldi sig einfaldlega vera að vinna verk sitt, og vinna það miklu betur en forverarnir.

Jón sýndi án nokkurs vafa; gríðarlegt dómgreindarleysi og vanþroska.
Gylltu hnapparnir, vegtyllan, villti Jóni sýn.
Þessi sömu einkenni eru mjög sýnileg hjá mörgum lögreglumönnum og ýmsum öðrum embættismönnum.
Gullhnapparnir taka vitið frá mönnum. Fyrirgefið, ekki öllum, tekur vitið frá vanþroskuðum mönnum.

Þroskað og skynsamt fólk með hugsjónir sem það vill að nái fram að ganga, eyðir ekki tíma sínum á Alþingi íslendinga. Þar eru starfshættir of vanþroskaðir til þess.
Þar er of mikill vanþroski. Þar er vanþroski allsráðandi.
Þar safnast saman fólk, án hugsjóna, án staðfestu, án viljastyrks án staðfestu o.sv.frv.
Vanþroskað fólk sem tekur vegtyllur, gyllta hnappa, fram fyrir hugsjónir.
Vanþroskað fólk sem setur sína eigin drauma um að fá að láta ljós sitt skína, framar velferð þjóðarinnar. Skellir skollaeyrum við óskum og þörfum þjóðarinnar.
Þetta sýnir sig æ ofan í æ.

Vanþroskað fólk.

Valdemar Ásgeirsson.


Umburðarlynd alþýða.

Auðkúlu.......

Umburðarlyndi íslenskrar alþýðu er aðdáunarvert. Það er að minnsta kosti mín skoðun.
Fjölmiðlar hafa hinsvegar hneykslast á framkomu alþýðunnar í sambandi við mótmælin sem hafa verið á undanförnum vikum.
Yfirleitt hafa þessi friðsamlegu mótmæli verið kölluð óeirðir.
Samkvæmt mínum málskilningi þýðir orðið óeirðir;
óspektir eða ófrið.
Ég vil ekki kalla það óeirðir þó nokkrir einstaklingar kasti nokkrum eggjum í hús.

Hætt er þó við að alvöru óeirðir / óspektir, brjótist út á Íslandi á næstu vikum.
Um þessar mundir er fólkið í landinu að huga að jólahaldi. Mótmæli eru í bið.
Uppúr áramótum fer fólk að finna verulega fyrir arfavitlausum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þá fer líka fólk að verða fyrir atvinnuleysinu af fullum þunga, uppboð fara á fullt o.sv.frv.

Þá byrja óeirðirnar.

Valdemar Ásgeirsson.


Hér er stritað............


Valdemar Kamillus Benónýsson, afi minn kom á fund hreppsnefndar fyrir margt löngu.
Þar var verið að ræða hreppsmálin og úthluta einhverjum aurum til hinna fátækari.

Valdemar kastaði fram þessarri vísu:

Hér er stritað veikt með vit,
við það situr grunur.
Aurakritur kveikir þyt.
kjaftabita munur.

V.K.B.

Þessi á enn vel við.

Valdemar Ásgeirsson.

Frá Blönduósi til Slovakiu.........


Útlendingar á Blönduósi.

Ég hef á undanförnum vikum verið að vinna með fólki frá Slóvakíu og Póllandi.
Það vekur athygli mína hvað fólkið virðist vera kátt og glatt.
Nú er staðan á krónunni þannig að miklum mun færri evrur fást fyrir mánaðarkaup þessa fólks.
Árið 2005 kostaði ein evra innan við 80 kr., nú kostar evra 160 krónur. (Gróft sagt.)

Þrátt fyrir þetta er, sem fyrr segir fólkið kátt.
Nú eru að vísu flestir að fara heim til sinna fyrri heimkynna.

Maðurinn / manneskjan, eins og hún er sköpuð, sama hvaðan hún kemur, virðist hafa alveg ótrúlegan hæfileika til þess að aðlagast aðstæðum.

Hætt er við að nú reyni á þennan hæfileika hjá fjölda íslendinga.
A.m.k. liggur alveg fyrir að aðstæður flestra íslendinga munu breytast verulega á næstu misserum.
Hvernig mun okkur ganga að takast á við breyttar aðstæður ?

Verðum við áfram kát og glöð ?

Flestum mun takast það. Öðrum alls ekki.

Íslendingar eru heimtufrek og tilætlunarsöm þjóð. Ofdekruð þjóð.
Við héldum að við gætum allt og ættum rétt á að fá allt.

Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, lýsti þessu prýðilega, þegar hann sagði um sína kynslóð í viðtali árið 2007:

"Sú kynslóð ólst upp við mikið frjálsræði en einnig við mikla vinnusemi. Hún fór út að leika sér á morgnana og var þar allan daginn, kom ekki heim fyrr en hún var kölluð í mat. HÚN TALDI AÐ ALLT VÆRI HÆGT OG VAR AÐ ÞVÍ LEYTI ALGJÖRLEGA HÖMLULAUS."

Björn Hauksson, Bjössi vinur minn, bakari í Hveragerði, lét þessi orð falla fyrir u.þ.b. 22 árum síðan:

"Það ætti að skylda alla íslendinga til þess að vinna a.m.k. eitt ár í fiski og annað við landbúnað."
Bjössi taldi að það myndi leiða til þess að fólk lærði á hverju þjóðin lifir, og yrði til þess að fólk gleymdi síður uppruna sínum. Og héldi sig þá frekar á jörðinni.

Hvað öllu líður, mun sannarlega reyna á íslenska þjóð á næstunni.
Aðallega andlegt atgervi þjóðarinnar.
Eigi okkur að takast að rífa okkur upp úr þeim vanda sem við höfum ratað í, verðum við að taka á öllu okkar. Auk þess þarf samstillt átak allrar þjóðarinnar. Samvinnu.

Valdemar Ásgeirsson.


Íslenska konan, jól fyrr og nú.

Auðkúlu 24.12.2008.

Kona ein, hér í héraði sagði mér í vikunni sögu frá heimili eiginmanns síns.
Sögu frá þeim tíma þegar maðurinn hennar var að alast upp ásamt systkinum sínum á sveitabæ hér frammi í Húnvetnskum dal.
Systkinin eru að mig minnir sjö eða níu, skiptir ekki öllu máli.

Þegar Margrét, húsmóðirin, móðir barnanna, var að að undirbúa jólin, vann hún oft langt fram á nætur. Mestur friður var eftir að börnin voru sofnuð.
Einn sonurinn vaknaði þó ævinlega þegar leið á kvöldið og fór fram-úr og hjálpaði mömmu sinni í eldhúsinu, við bakstur, matargerð, þrif og annað.
Falleg saga.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------
Þessi saga rifjaði upp, uppvaxtarár mín í Sunnlenskri sveit, Landsveitinni, og jólaundirbúninginn heima.

Ófáar nætur stóð hún mamma mín við bakstur og matargerð, þrif, jafnvel málningarvinnu, veggfóðrun og skreytingar á heimilinu.
Hún bakaði margar gerðir af smákökum; piparkökur, tvöfaldar smákökur, smurðar saman með smjörkremi, í mörgum litum, vanilluhringi, loftkökur, hálfmána og margt fleira.
Svo voru tertur; lagtertur, brúnar og hvítar, auk stórra tertna s.s. marengs og rjómatertna.
Ekki var verið að kasta til höndunum, bakkelsið var einfaldlega fyrsta flokks.
Á aðfangadagskvöld var svo lambalæri með öllu tilheyrandi og heimagerður rjómaís (frystur í sérstöku formi í salti og snjó, því enginn var frystirinn) eða heimatilbúinn vanilluhringur með bláberjum.
Á jóladag heimareykt hangikjöt, heimabakaðar flatkökur af bestu gerð o.m.fl.

Mamma sá til þess að allir krakkarnir ættu hrein og straujuð falleg spariföt, sem við prýddumst um jólin.
Mikið af fatnaði okkar var saumaður heima og svo haganlega gerður að talað var um, hvað við krakkarnir í Holtsmúla værum ævinlega fínt til höfð og hrein.

Allt þetta gerði hún mamma, og við miklu lakari aðstæður en flestir búa við í dag.
Þegar árin hennar mömmu urðu fleiri, tóku systur mínar náttúrulega nokkurn þátt í undirbúningi og léttu undir með mömmu.
Geta má nærri um hvað þetta allt hefur verið mikil vinna.
Þetta var fórnfúst starf Íslenskrar móður.
Nú er elsku mamma orðin 77 ára gömul og enn er hún að láta gott af sér leiða.

Pabbi hafði til allt kjöt, saltaði og reykti. Það var mikið búsældarlegt í reykkofanum hans pabba þegar kom fram á aðventu.
Eins var með það, pabbi vann  kjötið af alúð og vandvirkni og útkoman varð eftir því.

Á Þorláksmessu fór ég gjarnan með pabba í gegningarnar og þá var reynt að búa í haginn fyrir hátíðina, t.d. að leysa meira hey úr stabbanum, svo ekki þyrfti að eyða tíma í það yfir hátíðardagana.
Allar skepnur, kindur og kýr fengu svo betri töðuna á hátíðinni.

Jólahátíðin heima var alltaf einstaklega falleg, enda komu eldri systur mínar oftast heim til þess að vera yfir jólin, og löngu eftir að þær höfðu sjálfar hafið sambúð og eignast eigið heimili.
Mér sjálfum fannst alltaf að eitthvað yfirskilvitlegt svifi yfir bænum okkar, gott ef ekki sjálfur Guð og englarnir voru ekki sérstaklega nærri okkur á jólum.
Á þann veg voru tilfinningar ungs og draumlynds drengs.
Ég trúi að fórnfýsi foreldra minna í garð okkar krakkanna, hafi orðið okkur ómetanlegt veganesti sem gott er að búa að. Minningin sannarlega yljar.

Ég er yngstur okkar systkynanna, á þrjár systur sú elsta er 11 árum eldri en ég.
Systur mínar leiddu mig og vernduðu, með þeim átti ég margar yndislegar stundir.
Ég er því alinn upp með konum, konum sem ávalt voru mér góðar og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að alast upp með.

Pabbi minn er dáinn, hann létst skyndilega á vordögum 1989.
Föðurafa mínum kynntist ég ekki, hann dó þegar ég var á fjórða ári.
Föðurömmu mína þekkti ég ekki mikið enda var hún orðinn legusjúklingur þegar ég fór að eignast einhverja glóru, hún lá á Hrafnistu.
Móðurafa minn þekkti ég ekki náið.
Móðurömmu mína þekkti ég vel og þáði hjá henni góð heilræði.

Ungur eignaðist ég svo yndislega konu, sannkallað tryggðatröll.
Hún hefur nú verið mér vinur og sálufélagi í rúm 25 ár, og staðið við hlið mér og stutt án skilyrða, í öllu okkar bjaki, öll þessi ár.

Það má því segja að konur hafi leikið stórt hlutverk í lífi mínu.
Óhætt er að segja að ekki hafa þær valdið mér vonbrigðum.

Ég sannarlega hef fengið að kynnast; "Íslensku konunni sem sem mig elskaði og helgaði sitt líf."

Ég birti hér texta Ómars Ragnarssonar, sem hann samdi við lag Billys Joels og Pálmi Gunnarsson söng svo fallega fyrir nokkrum árum:

Íslenska konan

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan sem ól þig og þér helgar sitt líf.

Með landnemum sigldi hún um svarrandi haf.
Hún sefaði harma, hún vakti er hún svaf.
Hún þerraði tárin hún þerraði blóð.
Hún var íslenska konan sem allt á að þakka vor þjóð.

Ó, hún var ambáttin hljóð
hún var ástkonan rjóð
hún var amma svo fróð. 

Ó, athvarf umrenningsins
inntak hjálpræðisins
líkn frá kyni til kyns.

Hún þraukaði hallæri, hungur og fár.
Hún hjúkraði og stritaði gleðisnauð ár
Hún enn í dag fórna sér endalaust má.
Hún er íslenska konan sem gefur þér allt sem hún á.

Ó, hún er brúður sem skín
Hún er barnsmóðir þín.
Hún er björt sólarsýn.

Ó, hún er ást, hrein og tær
Hún er alvaldi kær.
Eins og Guðsmóðir skær.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
Þú veist hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

En sólin hún hnígur og sólin hún rís.
Og sjá þér við hlið er þín hamingjudís,
sem ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar, sem ann þér og þér helgar sitt líf.

Ómar Ragnarsson.
-----------------------------
Valdemar Ásgeirsson, Auðkúlu.


» 0 hafa sagt sína skoðun


Hólsfjöll eða Brussel ? HÓLSFJALLA-HEIMSSPEKI, framtíðin.....?

Auðkúlu 23 des. 2008.

Brussel eða Hólsfjöll ?
Ásdís Ólsen stýrði þætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN nú á dögunum.
Gestir hennar voru; Bryndís Schram, Þráinn Bertelsson, Erla Bolladóttir og Margrét Pála Ólafsdóttir.
Einstaklega skemmtilegt fólk, allt.
Þetta fólk á það sameiginlegt að vera að gefa út æfiágrip nú fyrir komandi jól. Það er reyndar aukaatriði.
Bryndís, Þráinn, Erla, Margrét, og að mér sýndist Ásdís líka, eiga fleira sameiginlegt en að vera að gefa út bækur.
Þau eru öll að kalla eftir breyttri þjóðfélagsskipan.
Þau eru; þverskurður af mannfélagi þjóðar sem vill breytingar. Fólk sem hefur fengið upp í kok af gróða- græðgis og peningahyggju núverandi stjórnvalda.
(Mín skoðun er reyndar að upphafið af græðgisvæðingunni, hinum hömlulausa kapital-isma, hafi verið þegar framsal á kvóta, framleiðslurétti, aflaheimildum eða hvað nafn við veljum fyrirbærinu, var heimilað.
Komum betur að því síðar.)
Aftur að þættinum hennar Ásdísar.
Ég get ekki á mér setið að minnast eilítið á Erlu Bolladóttur. Þarna er á ferðinni sannkölluð hetja. Manneskja sem hefur mátt sitja undir hræðilegum ásökunum allt sitt líf. Manneskja sem ég fullyrði að borin var röngum sökum og pínd til að játa á sig og félaga sína, þar á meðal sambýlismann sinn og barnsföður, hina hræðilegustu glæpi.
Já, pínd, píntuð !!! Svipaðar aðferðir voru notaðar við þetta fólk og notaðar eru í Guantanamo. Fólk sem var einungis unglingar, varnarlausir unglingar sem höfðu kannske, pínulítið farið út af sporinu. Þarna áttu hlut að máli menn sem núna eru hátt settir í samfélaginu. Er sú staðreynd kannske hluti af því að ekki má taka mál Erlu upp og rannsaka það ?
Eins og Þráinn sagði í þættinum er Íslensk þjóð bæði treg og dauf. Nú er 21. öldin, ekki sú 17nda.
Samt er mál Erlu og Sævars, Geirfinnsmálið, ekki tekið upp og rannsakað.
Íslensk stjórnvöld geta sennilega ekki lært. Fer það ekki að verða fullreynt ?
Margrét Pála er sennilega ein af greindustu borgurum þessa lands. Í þættinum lýsti hún lífinu á Hólsfjöllum þar sem hún er uppalin.
Á Hólsfjöllum voru eins og víðast hvar á þeim tíma, í heiðri höfð, gömul og góð gildi s.s. hófsemi, nægjusemi, það að fara vel með, nýta landið o.sv. frv. M.ö.o. allt sem hún amma kenndi.
Margrét segist ekki taka undir með þeim sem vilja byggja upp "nýtt Ísland". Hún vill bara fá til baka "gamla Ísland".
Mikið er ég sammála. Mikill léttir yrði það.
Þráinn greip þetta á lofti og kallaði "Hólsfjalla-heimsspeki."
HÓLSFJALLAHEIMSSPEKI.
Hér er komið nýtt hugtak yfir þá stefnu sem ég held að mikill hluti þjóðarinnar vilji sjá fram ganga.
Það sem ég hef kallað "allt sem amma kenndi".
Mikið lifandi gætum við íslensk þjóð átt gott líf, bara ef við byrjuðum strax að tileinka okkur kenningar Hólsfjallaheimsspekinnar.
Lærum að virða og elska Ísland og það sem landið og miðin gefa okkur. Hætta að elska bara allt sem er utanlands. 
Hamingjan býr með okkur sjálfum, hamingjan er allt í kring um okkur.
Hamingjan kemur nefnilega innanfrá.
Það sagði hún amma. Það er Hólsfjallaheimsspeki.
Valdemar Ásgeirsson.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband